Ferill 685. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1145  —  685. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi Björnsdóttur um skilgreiningar á hlutlægum viðmiðum í kynferðisbrotamálum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða hlutlægu viðmið telur ráðherra liggja að baki orðinu „langdregið“ annars vegar og orðunum „harkalegt kynlíf“ hins vegar eins og þau koma fram í dómaframkvæmd kynferðisbrotamála og hvaða áverka má rekja til þess athæfis sem þessi orð lýsa?
     2.      Hvar liggja skilin milli harkalegs kynlífs og nauðgunar eða annars ofbeldis samkvæmt gildandi löggjöf?
     3.      Hvenær var hugtakinu „harkalegt kynlíf“ fyrst beitt sem málsvörn í kynferðisbrotamáli, hversu oft hefur hugtakið komið fyrir í dómsmálum um kynferðisofbeldi síðan og er að merkja aukna tíðni notkunar frá því að þeirri málsvörn var fyrst beitt?
     4.      Hversu oft hefur kæra um kynferðisofbeldi verið felld niður á grundvelli þess að um harkalegt kynlíf hafi verið að ræða?


    Í fyrstu tveimur töluliðum fyrirspurnarinnar er óskað lögfræðilegrar álitsgerðar ráðherra um merkingu tiltekinna hugtaka, hvaða áverka megi rekja til þess athæfis sem hugtökin lýsa og mörkum tiltekinnar háttsemi og nauðgunar eða annars ofbeldis samkvæmt gildandi löggjöf. Túlkun á þeim hugtökum og þau viðmið sem fyrirspurnin að þessu leyti lýtur að er á forræði dómstóla að dæma um með hliðsjón af atvikum í hverju máli fyrir sig, svo og ákæruvalds, þegar mat er lagt á hvort ákæra skuli fyrir háttsemi sem til álita kemur að verði talin refsiverð í skilningi almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Til hliðsjónar má benda á nýlegan dóm Hæstaréttar Íslands frá 22. febrúar 2023 í máli nr. 46/2022. Í dómnum er meðal annars að nokkru leyti fjallað um þau hugtök sem fyrirspurnina varða.
    Ráðherra hefur hvorki upplýsingar um hvenær sú málsvörn sem nefnd er í 3. tölul. fyrirspurnarinnar var fyrst notuð né heldur hversu oft hún hefur komið fyrir í dómsmálum. Aftur á móti er bent á að dómar Hæstaréttar, Landsréttar og héraðsdómstóla landsins eru aðgengilegir á vefsvæðum dómstólanna, með þeim takmörkunum sem leiðir af birtingu dómsúrlausna.
    Hvað 4. tölul. varðar þá eru hinar umbeðnu upplýsingar ekki skráðar og því er ekki unnt að veita svör við þeim hluta fyrirspurnarinnar.